Leita í fréttum mbl.is

First Saturday #10-11

Þrátt fyrir að Húnninn hafi brugðist mér hef ég ákveðið að klára þessa pistlaröð. Þessi er svolítið seint á ferðinni en ég tel það skyldu mína að klára hann.

Tíunda umferðin var einstaklega gleðileg fyrir okkur strákana. Í fyrsta og eina skiptið í mótinu unnum við báðir í sömu umferð. Ég vann hálfgerðan skyldusigur gegn ungum írskum skákmanni sem var aðeins með 3 jafntefli í mótinu en Hjörvar hinsvegar kom mér og væntanlega öllum á óvart með því að vinna Weiming Goh (2375) sem þegar var kominn með áfanga í mótinu og hafði aðeins leyft tvö jafntefli en slátrað rest. Það sem er enn athyglisverðara er að Hjörvar var með svart!

Mestur undirbúningur hjá Hjörvari fór í mainline í Rauzernum. Alls 3 klukkutímar allavega! Minni tími fór í 3.Bb5 en við áttum síður von á þeim leik. Hjörvar hafði þó lítillega skoðað hann. Það verður svo að segjast að Hjörvar tefldi mjög solid og hrifsaði líklega smá frumkvæði í kringum 20. leik. í framhaldinu þvingaði hann svo Singapore strákinn til að fórna skiptamun og stýrði loks vinningnum í hús eins og herforingi.  Sannarlega glæsilega gert hjá stráknum!


Kaupþingsmenn hljóta að vera ánægðir með sinn mann sem hefur sýnt miklar framfarir!

Ég "hélt" að ég hefði unnið frekar öruggan sigur gegn Íranum þ.e. ég tefldi rólega, fékk slightly betra og vann án þess að leyfa mótspil. Eða svo hélt ég allavega þar til ég sló skákina inn í Fritz sem ég gerði ekki fyrr en á leiðinni heim. Þá kom eilítið í ljós sem hafði ekki einu sinni hvarflað að mér:

Ingvar_griffiths
Staðan eftir 27.dxe5 sem var svartur biskup.

Ég semsagt hafði leikið 26.d4 sem svartur svaraði með Hbg8 því að ef hann færir biskupinn hrynur staða hans eftir að ég drep á d6 með biskup. Í stöðumyndinni lék svartur svo 27...Hg1+ og ég vann auðveldlega eftir nokkra leiki í viðbót. Það sem við báðir misstum hinsvegar af var 27...Da4!! og ég get hreinlega gefist upp! Drottningin er friðhelg vegna máts á g1 og eftir aðra leiki kemur ...De4+ og þetta er hreinlega búið! Og ég sem hélt að þetta hefði verið nokkuð "hrein" skunkabönunarskák!?!

Hvað um það...við félagarnir vorum sáttir og fórum við gott út að borða glaðir í bragði. Reyndar var næsta skák kl. 10 morguninn eftir þar sem um var að ræða síðustu umferð og því gafst okkur lítill tími til stúderinga. Hjörvar átti hvítt á stigahæsta manninn í flokknum sínum en ég Englending með 2301. Reyndar hafði ég lítillega kynnst þessum Englending ásamt nokkrum öðrum keppendum eftir 9. umferð og þar höfðum við samið um að byrja okkar skák kl. 12 þar sem hvorugur okkar átti flug þennan dag og báðir erum við litlir morgunhanar.

Þegar ég kom um 12-leytið í síðustu umferðina var Hjörvar þegar að verja erfitt endatafl sem hann átti enga vinningsmöguleika í. Klassískt góður riddari gegn ömurlegum biskup endatafl. Hinsvegar var aðkoma svarta kóngsins erfið og á því héngu jafnteflismöguleikar Hjörvars. Skilst mér að hann hefði í raun átt að halda þessu en hefði mátt gefa sér öllu meiri tíma í að finna bestu vörnina og á endanum hafði reynsla Galyas þetta og Hjörvar varð að gefast upp. Skák mín varð svo nokkuð stutt. Ég ákvað að tefla modern...bæði til að rugla andstæðing minn og eins framtíðarandstæðinga. Ekkert jafn pirrandi og að undirbúa sig fyrir andstæðinga sem teflir 3-5 byrjanir gegn þínum opnunarleik. Tefldi semsagt frakka, skandinava, modern í þrem skákum með svart gegn 1.e4 og svei mér þá ef Sikileyjarvörn verður ekki næst á dagskrá! En eins og ég sagði varð skákin nokkuð stutt. Mér tókst að jafna taflið nokkuð þægilega og jafnteflisboð var nokkuð freystandi.

Lokaniðurstaðan var því hjá mér sú að ég tapaði 4 stigum og það eftir 2,5 í þrem síðustu umferðunum. Að mínu mati átti ég slæmt mót og var á köflum að tefla illa með lélega einbeitingu. Með tilliti til þess tel ég það gott að tapa aðeins 4 stigum á svo slæmu móti.  Hjörvar hinsvegar átti glæsilegt mót. Hann var með um 2,5 vinning meira en hann átti að fá og því hækkar hann um ein 37-39 stig fyrir þessa frammistöðu. Strákurinn á hraðri uppleið og ætti að komast yfir 2200 elóstigin á næsta lista.

Eftir síðustu umferðina héldu Hjörvar og Grétar faðir hans til Vínar þar sem þeir heimsóttu systur Grétars. Ég varð hinsvegar einn eftir og notaði tækifærið til að kynnast betur nokkum keppendum. Strax eftir umferðina settumst við niður og fengum okkur einn umgang. Með mér voru Luch frá Póllandi, Doggers frá Hollandi, Thomas frá Kanada og Eggleston frá Englandi. Í þessum umgangi var líka með okkur hress vinur Doggers frá Hollandi Gerald sem hafði heimsótt mótið í viku. Hann var hinsvegar á för heim eftir um klukkutíma. Við hinir ákváðum að hittast í kvöldmat á Red Pepper ágætis stað við eina af aðalgötunum. Þar bættist í hópinn GM Mark Bluvshtein sem var þar ásamt ungverskri kærustu sinni. Gullfalleg stelpa sem kom að horfa á allar umferðirnar (og trufla okkur hina!). Að sögn Marks var heimsókn hans hér og þátttaka eingöngu vegna hennar því vestrænir GM's fá ekki beint borgað fyrir að tefla í GM grúppu hjá Nagy. Talandi um Bluvshtein og Doggers þá verð ég að benda á myndband sem er væntanlegt á www.chessvibes.com þar sem Doggers lætur Bluvshtein sýna skák sína við L. Vadja þar sem Bluvshtein m.a. fórnaði 4 peðum og var nálægt því að mála meistaraverk en missti skákina niður í jafntefli. Frábær skák sem allir ættu að skoða.

Um kvöldið og eftir matinn lögðum við svo leið okkar á Margaret Island þar sem við skelltum okkur á skemmtistað og áttum gleðilega kvöldstund. Umgöngum var skipt bróðurlega á milli og mikið var skeggrætt og margar voru sögurnar. Misfyndnar þó en fyndnastar fannst mér þó ófyndnu sögurnar hjá Pólverjanum sökum þess að enska hans hljómar 99% eins og talandi Borat og því varð ég að berjast mjög um þegar það kom löng saga sem svo reyndist með eindæmum ófyndin. BoratAthyglisverðasta umræða kvöldsins var þó um skák L.Vajda frá Rúmeníu og Viktor Erdös frá Ungverjalandi. Sá síðarnefndi er efnilegur Ungverji með 2518 og með sigri með svörtu í síðustu umferð tryggði hann sér GM norm. Það sem mönnum þótti þó athyglisvert var eftirfarandi. Vajda var taplaus með frábært skor 8 eða 8,5 af 10. Vajda tapaði í rétt yfir 20 leikjum með hvítu og notaði varla tímann, 1:38 þegar ég kíkti í um 21-22. leik. Venjulegast þegar menn lenda í erfiðum fórnum og stöðum þar sem menn eru í vandræðum nota menn tímann til að finna leið út úr vandræðum. Punktur númer tvö var að þó að Erdös notaði tímann (var vel undir klukkutíma) vildu menn meina að hann hefði kláralega bara verið að "drepa tímann" þ.e. eins og hann væri bara að horfa út í loftið og láta sér leiðast. Á sama tíma virtist Vajda vera skítsama. Það ætti að vera augljóst hvað menn eru að gefa í skyn þarna og ef rétt reynist er það báðum þessum skákmönnum til háborinnar skammar. Við skulum þó vona að hér hafi einfaldlega verið á ferðinni sanngjörn skák.

Á fimmtudeginum hitti ég svo Hjörvar og Grétar aftur þegar þeir komu úr ferð sinni til Vínar. Við áttum pantað borð á Pomo D'Oro og þar áttum við síðustu kvöldmáltíðina. Þar fór eftirfarandi fram:

(þarf að kanna af hverju vídeóið verður svona dökkt á YouTube...í öllu falli er það sem er talað það sem skiptir máli)

Ég held að Hjörvar sé búinn að fyrirgefa mér en hann er víst alveg ólmur í rematch!

Um heimförina gæti ég svo skrifað gríðarlegan pirringspistil með mannfyrirlitninguna í broddi fylkingar...en orðum það bara þannig að ég var ekkert sérstaklega sáttur við að þurfa að tæma vasa, taka af mér beltið og taka laptopinn mínn úr töskunni þrisvar sinnum á um 3-4 klukkutímum. En látum þetta gott heita af pistlum frá First Saturday.

Mannfyrirlitningardjákninn á Burknavöllum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Höfundur

Ingvar Þór Jóhannesson
Ingvar Þór Jóhannesson
Tölvunarfræðingur FIDE meistari í skák og áhugamaður um íþróttir.
Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband